A A A

Halli í ár og nćsta ár hjá Heilbrigđisstofnun Vestfjarđa

28.12 2018 | Svavar Ţór Guđmundsson
Enn rúmlega 50 milljóna halli 2018

Áætlanir benda til að Heilbrigðisstofnun Vestfjarða verði á árinu 2018 rekin með um 50 milljóna króna halla þegar tekið hefur verið tillit til aukafjárveitinga á árinu. Þær voru stærstar 48 milljónir í sumar og  80 milljóna króna sem tilkynnt var um 27. desember. Sé litið framhjá aukafjárveitingunum er hallinn því tæpar 200 milljónir.

Laun höfðu verið vanáætluð í rekstraráætlun, en auk þess komu til stofnanasamningar við verkalýðsfélög ófaglærðra, þar sem kjör höfðu dregist verulega afturúr, afturvirkar leiðréttingar á launum sjúkraliða og ýmis önnur launatengd útgjöld. Saman eru launagjöld 250 milljónum króna hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Stærstur er hallinn á hjúkrunarsviði, þar sem fjögur hjúkrunarheimili falla undir; Eyri á Ísafirði með 30 rými, hjúkrunardeild á sjúkrahúsinu á Patreksfirði með 11 rými, Berg í Bolungarvík með 10 rými og Tjörn á Þingeyri með 6. Svipaða sögu er að segja af hjúkrunarrýmum annarsstaðar á landinu, þar sem bæði stór og smá heimili berjast í bökkum.

Stofnunin hefur í gegnum árin farið í nokkrar umferðir af aðhaldsaðgerðum, nú síðast um þetta leyti árs í fyrra, þar sem starfskjör lækna voru skert, ný gjaldtaka var hafin og ýmsar starfstengdar greiðslur voru minnkaðar nokkuð.

 

Fyrirsjáanlegur halli 2019

Fyrstu spár gerðu ráð fyrir halla upp á 165 milljónir króna fyrir árið 2019. Fjárheimildir eru hækkaðar um 50 milljónir milli ára, en eingöngu á heilsugæslusvið og sjúkrasvið sem fyrir er betur ástatt um en hjúkrunarsviðið, þar sem að óbreyttu yrði halli upp á 20%.

Við aðra umræðu fjárlaga var bætt við fjárveitingu til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni til kaupa á myndgreiningarbúnaði og annar pottur settur upp fyrir tækjakaup. Þetta er kærkomið en tekur ekki á undirliggjandi rekstrarvanda. Systurstofnanir hringinn í kringum landið hafa svipaða sögu að segja. 

 

Fyrirhugaðar aðgerðir nægja ekki til

Unnið er að aðgerðum til að draga úr kostnaði. Farið verður í átak í að minnka yfirvinnu. Lagt verður til við Ríkiseignir að húshitunarkostnaður verði minnkaður með fjárfestingu í varmadælum á sjúkrahúsin tvö.

Þá verður heilsugæsluselinu á Flateyri lokað á árinu, en það er nú rekið í óhentugu húsnæði. Heimsóknir þangað eru um 200 á ári. Leitað verður leiða með Ísafjarðarbæ svo að almenningssamgöngur geti tekið mið af þessu. Nánari upplýsingar verða veittar á nýju ári og íbúafundur boðaður í janúar. Önnur heilsugæslusel verða rekin áfram með óbreyttu sniði.

Þá verður áfram haldið í að tryggja skilvirkni í starfsemi á skrifstofu og móttöku. Hefðbundin starfsmannavelta verður nýtt þegar stöðugildum verður fækkað á hjúkrunarheimilinu Eyri. Utanaðkomandi ráðgjafi hefur tekið út starfsemi hjúkrunarheimilanna allra og verður unnið úr þeim niðurstöðum á næstu vikum, þó ljóst sé að ekki sé svigrúm til stórra breytinga.

Fjárhagsáætlun hefur verið lokað í jafnvægi lögum samkvæmt, en þegar tillit hefur verið tekið til samþykktra aðhaldsaðgerða eru í áætlun 83 milljóna króna aðhaldskrafa sem enn er óútfærð.

 

Litið fram á veginn

Óhjákvæmilegt er að fjölbreyttur og flókinn rekstur dreifðrar stofnunar hafi kosti meira en gerist þar sem þéttar er búið.

Áfram verður unnið að því að lækka kostnað en þeir kostir sem eftir standa hafa allir í för með sér þjónustuskerðingu eða óhagræði fyrir íbúa svæðisins og yfirvöld. Þannig hefur minnkuð þjónusta á Vestfjörðum í för með sér hvort tveggja minni sókn í heilbrigðisþjónustu—eins og raunin er nú þegar—og að ferðakostnaður verður mun meiri en ella væri. Skerðing fæðingaþjónustu hefði til dæmis mikinn kostnað fyrir foreldra, þjónustuskerðing í heimahjúkrun eykur annan kostnað og þannig má áfram telja.

Stjórnendur og aðrir starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða munu áfram vinna að því að virða tvíþættan vilja löggjafans, um að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita, og að það sé gert innan ramma fjárlaga.

Skráning á heilsugćslustöđvar

20.12 2018 | Svavar Ţór Guđmundsson

Um síðustu mánaðamót var sett í gang rafræn keyrsla hjá Landlækni sem leiðrétti skráningar einstaklinga á heilsugæslustöðvar. Allir Íslendingar eru skráðir á heilsugæslustöð í sínu umdæmi en dæmi hafa verið um að þeirri skráningu hafi verið áfátt og því var ráðist í að leiðrétta hana á landsvísu. Slík skráning er nauðsynleg því nú mun fjöldi skjólstæðinga hjá heilsugæslustöð verða tengd að nokkru leyti við framlög til hennar. Það er því mikilvægt að þessi skráning sé rétt.

Nú ætti þessi skráning að vera orðin nokkuð nærri lagi en þó þurfa allir að ganga úr skugga um að þeir séu skráðir á rétta heilsugæslustöð. Til að gera það þarf að fara á vefinn og inn á slóðina www.sjukra.is en það er vefur Sjúkratrygginga Íslands. Síðan þarf að skrá sig inn í Réttindagátt skjólstæðinga sem er að finna á forsíðunni. Til þess að geta skráð sig þar inn, þarf viðkomandi að hafa rafræn skilríki. Hér er slóð á leiðbeiningar um það hvort að fólk sé skráð á rétta heilsugæslu (í sínu umdæmi/nálægt lögheimili) og þá hvernig hægt er að breyta þeirri skráningu ef þarf.

Starfsfólk heilsugæslunnar á Ísafirði hefur nú þegar lagt mikla vinnu í að skrá einstaklinga á heilsugæslustöðvar í þeirra heimabæjarkjörnum en alltaf má gera betur. Við biðjum skjólstæðinga okkar því um að ganga úr skugga um þessa skráningu. Svo verður að minnast á það, að nú er sífellt algengara að upplýsingar um marga þá hluti sem að okkur snúa, þ.m.t. heilsu okkar, séu á rafrænu formi. Til að nálgast þær, t.d. þetta framangreinda og líka grunnupplýsingar úr sjúkraskrám okkar inni á www.heilsuvera.is svo eitthvað sé nefnt, verður fólk að hafa rafræn skilríki. Eru því allir hvattir til að verða sér úti um slík skilríki en það er t.d. hægt að gera í viðskiptabanka hvers og eins.

Hildur Elísabet fyrirmyndarstjórnandi ársins 2018

6.12 2018 | Hörđur Högnason
Hildur og Sandra, formađur SLFÍ
Hildur og Sandra, formađur SLFÍ
1 af 2

Sjúkraliðafélag Íslands hefur útnefnt Hildi Elísabetu Pétursdóttur fyrirmyndarstjórnanda ársins 2018. Hildur er deildarstjóri hjúkrunarheimilanna Eyrar á Ísafirði og Bergs í Bolungarvík og hefur verið frá opnun beggja heimila.

 

Þetta er í fimmta skipti sem Sjúkraliðafélagið stendur fyrir útnefningunni, sem hefur það að markmiði að styðja við og draga fram það sem vel er gert í mannauðsstjórnun. Verðlaunin voru afhent í sal Eyrar þriðjudaginn 4. desember.

 

Við afhendingu verðlaunanna sagði Sandra B. Franks formaður Sjúkraliðafélags Íslands að í umsögn um Hildi sé bent meðal annars á framúrskarandi eiginleika hennar í mannlegum samskiptum og hversu vel hún nýtir faglega hæfni og færni sjúkraliða í störfum sínum.

 

Gylfi Ólafsson forstjóri sagði við þetta tilefni að Hildur væri vel að verðlaununum komin, hún væri öflugur stjórnandi sem hefði lánast að gera öfluga liðsheild meðal starfsfólks.

 

Hildur sagði við móttöku verðlaunanna að starfsfólkið skipti öllu máli. Svona stofnanir megi líta á sem keðju, þar sem hver hlekkur er mikilvægur. Eyri og Berg hafi alltaf verið heppin með starfsfólk og það hafi gert starf hennar auðvelt.

 

Hildur Elísabet hefur unnið hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða eða fyrirrennurum stofnunarinnar með litlum hléum síðan 1997 þegar hún útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá Háskóla Íslands. Hún lauk diplómanámi í hjúkrun hjarta- og lungnasjúklinga árið 2006 og meistaragráðu í hjúkrunarstjórnun árið 2011.

Breytt lög um líffćragjöf

4.12 2018 | Svavar Ţór Guđmundsson

Þann 1. janúar nk. munu lög um líffæragjafir breytast þannig að þá munu allir íslenskir ríkisborgarar verða sjálfkrafa líffæragjafar. Vilji fólk ekki gefa líffæri sín, verður það að haka í sérstakan reit í Heilsuveru eða á síðu Landlæknisembættisins til þess að gera afstöðu sína heyrinkunnuga í heilbrigðiskerfinu. Noti fólk ekki tölvu þarf það að láta heimilislækni sinn vita og hann/hún gerir viðeigandi ráðstafanir. 

Hér til hægri er búið að koma fyrir hnappi, Við gefum líf, sem vísar á síðu Landlæknisembættisins þar sem hægt er að fræðast nánar um þetta.

Inflúensubólusetningar haustiđ 2018

27.09 2018 | Svavar Ţór Guđmundsson

Inflúensubólusetningar hefjast þann 1. október nk. en þeim lýkur þann 30. nóvember.

 

Bólusett verður á Heilsugæslustöðinni Torfnesi á Ísafirði og er opið alla virka daga kl. 14:30 til 15:30. Bólusett verður á öðrum heilsugæslustöðvum (Bolungarvík, Flateyri, Suðureyri, Súðavík og Þingeyri) á opnunartíma þeirra. Þar þarf að panta tíma svo að vitað sé um magn bóluefnis í hvert sinn.

 

Einnig er bólusett á heilsugæslustöðinni á Patreksfirði. Þar er betra að bóka tíma og fá tíma samdægurs. Ekki er sérstaklega boðið upp á bólusetningar á Bíldudal og Tálknafirði, en þeir sem eiga ekki heimangengt ættu að hafa samband við heilsugæsluna og þá er lausn fundin á því. 

 

Allir sem fá bólusetningu þurfa að greiða komugjald á heilsugæslustöðina, en einstaklingar 60 ára og eldri, og þeir sem tilheyra eftirtöldum áhættuhópum, fá bóluefnið sér að kostnaðarlausu. Munið að framvísa afsláttar- og/eða örorkuskírteini við komuna.


Sérstaklega mælir sóttvarnalæknir með að eftirtaldir áhættuhópar njóti forgangs við bólusetningarnar:

 

- einstaklingar 60 ára og eldri

- einstaklingar með langvinna hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdóma, sykursýki, illkynja sjúkdóma og aðra ónæmisbælandi sjúkdóma.

- heilbrigðisstarfsfólk sem annast sjúklinga í áhættuhópum hér að ofan.

- þungaðar konur

 

Uppfært 17. október með upplýsingum um suðursvæðið. 

Fyrri síđa
1
234567495051Nćsta síđa
Síđa 1 af 51
Vefumsjón