Á alþjóðadegi hjúkrunar, 12. maí 2004, sem jafnframt var 85 ára afmæli „Fjelags íslenskra Hjúkrunarkvenna“ hins gamla, stóð Vestfjarðadeild Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga fyrir opnun sýningar á gömlum hjúkrunar- og lækningamunum í safnahúsinu á Ísafirði, en það var fjórðungssjúkrahús áður.

Í hófi af því tilefni, afhenti deildin Heilbrigðisstofnuninni að gjöf hálfsjálfvirkt hjartastuðtæki að gjöf af gerðinni AccessAED.
Fjármagnaði deildin kaupin að jöfnu á móti Minningarsjóði FSÍ um Úlf Gunnarsson fv. yfirlækni.
Tækið er mjög fyrirferðalítið, en afar fullkomið. Það metur sjálfkrafa hjartsláttinn og hjartsláttartruflanir og segir sjálft til um það, hvernig bera skuli sig að við að nota tækið, tengja við sjúklinginn og hvenær skuli stuða. Þessar skipanir birtast bæði á skjá og einnig með rödd á íslensku.

Þessi tæki og önnur lík þeim er víða farið að kenna almenningi að nota. Erlendis eru þau að finna uppi á veggjum verslunarmiðstöðva og stórra fyrirtækja. Hér á landi breiðist þessi notkun út á sama hátt og má líka finna þau í mörgum lögreglubílum, heilsigæslustöðvum, sjúkrabílum, og víðar.
 
Heilbrigðisstofnunin Ísafjarðarbæ þakkar Vestfjarðadeild Félags Íslenskra hjúkrunarfræðinga fyrir framtakið með sýningunni og höfðinglega gjöf, sem bætir til muna viðbragðsflýti við alvarlegum hjartaáföllum og á vonandi eftir að koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll af þeirra völdum.