Hjúkrunardeildinni á Sólborg á Flateyri verður lokað á árinu 2010 og þörfinni fyrir hjúkrunarrými þar mætt með öðrum hætti.

Ástæðan er að Heilbrigðisstofnun Vestfjarða þarf, eins og aðrar heilbrigðisstofnanir landsins að draga saman í rekstrinum. Af þessum sökum lækka framlög til hjúkrunarrýma hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða um 28.8 milljónir á næsta ári. Þeirri lækkun verður ekki mætt nema með samdrætti í starfsemi þar sem megnið af útgjöldum stofnunarinnar eru laun.

Á Flateyri hefur til margra ára verið rekin lítil hjúkrunardeild Sólborg í afar óhentugu og gömlu húsnæði. Deildin er á annarri hæð í húsi án lyftu og þrengsli eru mikil. Lítil eftirspurn hefur verið eftir plássum þar og er nú svo komið að lengst af hafa verið þar 2 – 3 heimilismenn sem þýðir að deildin hefur verið mjög vannýtt. Í ljósi þessa hefur verið ákveðið að hjúkrunardeildinni á Sólborg verði lokað á árinu 2010.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða mun tryggja að íbúarnir fái örugga vistun þegar heimilinu verður lokað. Haft verður samráð við aðstandendur og íbúana á nýju ári. Litið verður til þeirra starfsmanna sem nú hefur verið sagt upp á Sólborg verði þörf á nýráðningum vegna starfsmannaveltu hjá stofnuninni á árinu 2010.


Höf.:ÞÓ