Efnahagshrunið í lok árs 2008 skók heiminn og við Íslendingar vorum sárt leiknir. Ennþá er deilt um orsakir hrunsins, en afleiðingar þess finnum við á eigin skinni dag hvern. Í kjölfar þess var skipt um stjórnendur og trúðu margir því að þeir myndu standa vaktina, landi og lýð til hagsbóta. Annað hefur komið á daginn. Angist, reiði og vonleysi vex daglega og hvergi sér til sólar.

Forgangsröðun?

Yfirvöld hafa samþykkt milljarða króna framlög í verkefni, sem þegnar þeirra telja fjarska fánýt.  Hér má telja viðræður við Evrópusambandið, byggingu tónlistarhúss, sem stórþjóðir með milljónir íbúa myndu ekki láta sér detta í hug að reisa, hvað þá reka. Rekstur utanríkisþjónustu sem ekki er í neinu samræmi við stærð og efnahagslega getu og þörf þjóðarinnar. Greiðslur fyrir setu í stjórn félaga í eigu ríkisins, sem jafnast á við mánaðar launagreiðslur til þeirra lægstlaunuðu, enda þótt stjórnarsetan krefjist í hæsta máta fjögurra klukkustunda vinnu á mánuði.  Á sama tíma gera stjórnvöld aðför að þeirri þjónustu sem flestir þegnar landsins leggja mest uppúr þ.e. heilbrigðisþjónustunni. Var það þetta sem búsáhaldabyltingin vildi?  Nei, segi ég!

Landið skelfur!

Í byrjun október börðu landsmenn fjárlagafrumvarp augum og má segja að þá fyrst hafi hryna skjálfta hafist, sem ekki sér fyrir endann á.Ég leyfi mér að fullyrða að aldrei í manna minnum hefur önnur eins aðför verið gerð að búsetu utan höfuðborgar-svæðisins.  Það er sárt til þess að vita að að slíkar hugmyndir kvikni í herbúðum ?norrænu velferðarstjórnarinnar?.  Áttu sennilega fæstir stuðningsmenn hennar von á slíkum manngerðum hamförum.  Á hátíðarstundum hafa stjórnmálamenn barið sér á brjóst og lofað íslenska heilbrigðiskerfið, sem nú á að skera niður í trog í einni svipan. Til Guðs lukku verður ekki mikið hróflað við ?flaggskipinu? Landspítalanum, en þar er innanborðs heilbrigðisstarfsfólk með þekkingu og reynslu á við það besta, sem gerist í heiminum. Landspítalinn er eins og eyland háður að- og útflutningi. Þannig hefur það verið og þannig á það að vera.  Nú eru blikur á lofti og hætta á að bæði að- og fráreinar hans verði tepptar, þar sem fjárlagafrumvarpið mun í raun leggja af landsbyggðasjúkra-húsin.  Þau hafa til þessa sent sjúklinga eftir greiningu og undirbúning í héraði, til sérhæfðra aðgerða og meðferðar á Landspítalann og síðan tekið við þeim til eftirmeðferðar.  Þetta hefur leitt til markvissrar vinnu (samvinnu) og sparað líklega háar fjárhæðir.  

Heilsugæslusjúkrahús?

Allt fjas um heilsugæslusjúkrahús er hjóm eitt og sárt til þess að vita að þingmenn skuli kaupa slíka firru. Ljós í myrkrinu eru þó kröftugar yfirlýsingar þingmanna úr liði stjórnarinnar, sem ekki styðja þessa aðför að landsbyggðinni og landinu öllu.  Hinir sem ennþá eru hrifnir af þessari hugmynd um heilsugæslusjúkrahús verða að svara þeirri samviskuspurningu, hvort þeir viti nákvæmlega hvað þar er á ferðinni?  Hvet ég þá og alla sem um þessi mál véla til vandlegrar íhugunar og að kynna sér málin til hlítar og afgreiða þau með yfirvegun og af hófstillingu okkur öllum til heilla.  Á þann hátt einan má forða stórskjálfta í stjórnarráðinu. (áður birt í Mbl. 15.10.2010)

Þorsteinn Jóhannesson, yfirlæknir Fjórðungssjúkrahúsins á Ísafirði.