Á opnu húsi fyrir velunnara sjúkrahússins færði Úlfssjóður, minningarsjóður um Úlf Gunnarsson fv. yfirlækni FSÍ stofnuninni nýtt sneiðmyndatæki.

 Árið 2005 þann 5 september hófst söfnun fyrir sneiðmyndatæki á Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði og að henni stóð samhentur hópur einstaklinga og samtaka á svæðinu.

Söfnunin gekk vel og þann 22. desember sama ár höfðu safnast rúmar 17 milljónir frá fjölda félaga, fyrirtækja og einstaklinga.

Jón Kristjánsson þáverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra veitti heimild til að ráðist yrði strax í nauðsynlegar framkvæmdir svo tækið mætti komast í gagnið sem fyrst.

Sjötta maí 2006 hófst uppsetning tækisins og 19. júní var búið að taka sneiðmyndir af fyrstu tveimur sjúklingunum.
Sneiðmyndatækið hefur komið sér vel, fyrsta árið nýttist það í rannsóknum á 255 manns en það var aðeins í notkun frá júní. Árið eftir var það nýtt fyrir 376 manns sér það, 456 árið 2008 en í ár nýttist það við rannsóknir á 265 manns frá janúar til júlí en þá bilaði það. Samtals voru gerðar 1352 sneiðmyndarannsóknir á 4 sneiða Thoshiba tækið sem sett var upp árið 2006.

Enn á ný réðust velunnarar stofnunarinnar í söfnun, nú undir merkjum Úlfssjóðs sem í dag er megin bakhjarl sjúkrahússins þegar kemur að endurnýjun tækja og búnaðar.

Í stjórn Úlfssjóðs eru:
Þorsteinn Jóhannesson formaður
Eiríkur Finnur Greipsson
Gísli Jón Hjaltason
Hörður Högnason

Á þessum tímamótum vill starfsfólk og stjórnendur stofnunarinnar nota tækifærið og þakka öllum velunnurum Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða kærlega fyrir hinn mikla velvilja og hlýhug sem þeir hafa sýnt nú sem áður.

Á myndinni má sjá Gísla Jón Hjaltason afhenda Þresti Óskarssyni gjafabréf Úlfssjóðs


Höf.:ÞÓ