Í dag var tekið í gagnið nýtt röntgentæki á starfsstöð stofnunarinnar á Ísafirði. Það eldra hafði verið bilað um nokkurra mánaða skeið, og þar sem það var orðið gamalt þótti ekki skynsamlegt að kosta miklu til að lagfæra það. Nýja tækið er frá Swissray.

Nýja tækið er öflugt en hefur þó ekki alla þá eiginleika sem hið eldra hafði. Nýtt fullkomið tæki verður aðeins keypt eftir útboð sem tekur töluvert lengri tíma en hægt var að samþykkja í þetta skipti. Það ferli er nú að fara í gang en mun ekki skila tæki fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári. Þegar það gerist mun Swissray tækið verða flutt til Patreksfjarðar og leysa þar af hólmi eldra tæki. Á Patreksfirði eru ekki starfandi geislafræðingar og er því heppilegt að þar sé einfalt tæki sem geislafræðingar stofnunarinnar á Ísafirði hafa kynnst vel. 

Röntgentækið er keypt með peningum sem komu á sérstökum fjárlagalið fyrir yfirstandandi ár, en nákvæm úthlutun þess fjár var tilkynnt með fréttatilkynningu heilbrigðisráðuneytisins á dögunum.


Gylfi Ólafsson forstjóri og Hulda María Guðjónsdóttir geislafræðingur veita tækinu viðtöku frá Stefáni S. Skúlasyni frá Fastusi, íslenskum umboðsaðila þess, og Martin Darms sem kom frá Swissray til að ljúka við uppsetningu og stillingu á tækinu. Á myndina vantar Ursulu Siegle deildarstjóra röntgendeildar.

Höf.:GÓ