Með tilkomu Dýrafjarðarganga batna samgöngur milli norður- og suðursvæðis Vestfjarða. Heilbrigðisstofnun Vestfjarða rekur rannsóknastofu á Ísafirði en einungis einföldustu próf eru greind á Patreksfirði. Sýni þaðan eru því send til Landspítala með flugi sem fer daglega frá Bíldudal. Kostnaður við þetta er talsverður, bæði greiningarnar sjálfar og flutningur, á sama tíma og umframgeta er til greininga á Ísafirði.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða er því opin fyrir viðræðum við hverja sem eru eða hafa í hyggju að hefja reglulegar ferðir frá Patreksfirði til Ísafjarðar, með möguleika á samnýtingu á ferðum í huga.

Þar sem þetta hefur í för með sér breytt vinnufyrirkomulag hjá okkur liggja þarfirnar ekki alveg ljósar fyrir og gætu breyst eftir því sem verkefninu vindur fram. Okkur sýnist þær vera helst þessar:

  • Sýnin þurfa að berast samdægurs en ekki skiptir máli hvenær innan dags.
  • Sækja þarf sýnin á sjúkrahúsið á Patreksfirði og afhenda á sjúkrahúsinu á Ísafirði.
  • Ferðir þurfa að vera minnsta kosti einu sinni í viku. Ekki er bráðnauðsynlegt að ferðir séu allar vikur ársins. Þó þyrftu þær að vera a.m.k. 40 til að nýtt verklag nái fótfestu og fari að borga sig. Mikilvægt er að fyrirsjáanleiki sé í því hvaða vikur ferðir eru farnar og hvenær þær falla niður. Okkur er fyllilega ljóst að stundum hamla veður og færð ferðum.
  • Ferðirnar þurfa að vera á virkum dögum, og helst alltaf á sama vikudegi.
  • Sýnin koma í kössum sem eru yfirleitt á stærð við skókassa.
  • Gerður yrði samningur til eins árs til að byrja með.

Hafðu samband fyrir lok nóvember ef þetta gæti fallið vel saman við ferðaáætlanir þínar eða fyrirtækisins þíns.

Nánari upplýsingar veitir Gylfi Ólafsson forstjóri.

Höf.:GÓ