Vestfirðingar þurfa fleiri tannlækna, bæði á Ísafjörð og Patreksfjörð. Nú býðst frábært tækifæri fyrir tannlækni að koma í þá útvistarparadís sem Vestfirðir eru.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hefur ekkert hlutverk í veitingu á tannlæknaþjónustu. Eina formlega aðkoman er að tannlæknastofur á heilsugæslunum á Ísafirði og Patreksfirði eru leigðar til sjálfstæðra tannlækna. Þó er það svo að forstjóri er í lið 1.9 í heilbrigðisstefnu til 2030 gerður „umdæmisstjórar heilbrigðismála innan síns umdæmis“, og við viljum því leggja okkar lóð á vogarskálirnar við að tryggja tannheilsu íbúa. Í þessu skyni hefur forstjóri verið í sambandi síðustu misseri við bæjarstjóra í umdæminu, Tannlæknafélag Íslands og yfirtannlækni í Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu.

Dýrafjarðargöng tengja Vestfirði saman

Sigurjón Guðmundsson hætti nýverið sökum aldurs. Hann skilur eftir sig fullbúna stofu og hérað sem þarf tannlækni við hlið Viðars Konráðssonar. Auglýst hefur verið meðal íslenskra tannlækna án árangurs. Á Patreksfirði háttar því svo til að fólksfjöldinn í nágrenninu er ekki nægur til að standa undir heilu stöðugildi tannlæknis, einkum þegar litið er til þess að tannheilsu Íslendinga hefur almennt farið mjög fram. Með tilkomu Dýrafjarðarganga standa vonir til að tannlæknir búsettur í námunda við Ísafjörð geti einnig sinnt Patreksfirði.

Nú teljum við að tilefni sé til að leita til erlendra tannlækna—og vegna leyfismála einkum evrópskra—og benda þeim á kosti þess að sinna tannlækningum á Vestfjörðum. Af því tilefni var búið til myndband og lítil upplýsingasíða sem sett hefur verið í birtingu á Facebook meðal evrópskra tannlækna.

Þar sem allur búnaður er til staðar er þetta tækifæri sérstaklega hentugt fólki sem skammt er á veg komið á ferlinum.

Enginn áhugasamur tannlæknir ætti að hika við hafa samband við Sigurjón tannlækni til að fá frekari upplýsingar.

Höf.:GÓ