26. mars s.l. var Heilbrigðisstofnuninni færð vegleg gjöf frá Minningarsjóði Margrétar Leósdóttur, en sjóðinn stofnaði eiginmaður Margrétar, Jóhann heitinn Júlíusson, til minningar um konu sína. Sjóðurinn hefur margoft fært stofnuninni gjafir og styrkt starfsmenn hennar.

 

Að þessu sinni komu Kristján G. Jóhannsson, sonur þeirra, Inga S. Ólafsdóttir, eiginkona hans og Jónína Högnadóttir, uppeldisdóttir Margrétar og Jóhanns, og færðu legudeildum H.V. að gjöf tvær afar vandaðar, loftdrifnar CuroCell SAM sjúkrarúmdýnur til varnar legusárum og tvö Völker fjölnota hjólaborð fyrir sjúklinga.

 

Þrýstingssár eru fylgikvilli þungrar legu. Erfitt getur verið að fyrirbyggja þau og afar erfitt að græða sárin. Góðar loftdýnur, þar sem stöðug loftskipti verða í fjölda lítilla hólfa, eru bráðnauðsynleg til að verjast þeim að einhverju gagni. Starfsfólk legudeildanna er himinlifandi að hafa fengið dýnurnar.

 

Sjúklingar eiga oft erfitt með athafnir daglegs lífs rúmliggjandi, í hjólastólum, eða með alls kyns umbúðir, snúrur og slöngur á sér. Góð hjólaborð, sem hægt er að hækka, lækka og halla á ýmsa vegu koma þá að góðum notum. Þau auðvelda persónulegt hreinlæti, borðhald, lestur, tölvunotkun, hannyrðir og þar fram eftir götunum.

 

Sigrún C. Halldórsdóttir, fjarmálastjóri og staðgengill forstjóra, þakkaði fyrir gjafirnar og bauð viðstöddum að þyggja veitingar.

 

Við þetta tækifæri færðu Inga og Kristján Jónínu Högnadóttur blómavönd fyrir einstaka ræktarsemi við minningarsjóðinn, en hún sér um sölu minningarkorta, sem er uppistaðan í tekjum sjóðsins.

 

Um þessar mundir eru liðin 100 ár frá fæðingu Jóhanns Júlíussonar. Kynnti Kristján G. Jóhannsson af því tilefni útgáfu bókar, sem hann hefur ritað um lífshlaup foreldra sinna og forfeðra. Bókina heitir ?Vertinn og kaupmannsdóttirin? og er prýdd fjölda skemmtilegra mynda úr æfi þeirra og lífsstarfi.


Höf.:HH