Frá því Covid-19 faraldurinn kom upp hefur verið mikið álag á starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða líkt og á öðrum heilbrigðisstarfsmönnum. Frá byrjun hefur verið unnið eftir nýjum reglum sem miðast að því að minnka samskipti til að varna því að smit breiðist út. Reglurnar breyttust og urðu strangari eftir því sem leið á faraldurinn. Þegar smit bárust svo vestur var það af miklum þunga og álag á starfsfólk jókst gríðarlega. Nokkur fjöldi starfsmanna stofnunarinnar datt úr vinnu vegna smita og sóttkvía og ómetanleg aðstoð bakvarða hefur hjálpað starfsfólki að halda stofnuninni gangandi á þessum erfiðu tímum. 

Það er ekki einungis faglært fólk sem kemur með þyrlu að sunnan til að hjálpa.  Bæjarbúar hafa einnig stokkið til og komið til vinnu. Þau eru fjölmörg handtökin sem vinna þarf og störfin margvísleg. Aukinn fjölda þarf í umönnun þar sem vaktakerfi breytast, ræstingar eru stórauknar og þrif með öðrum hætti en áður. Umsýsla ýmiskonar og aðföng eru margfalt meiri en á venjulegum dögum og með færri komum á heilsugæslu aukast til muna samskipti á neti og í síma og þeim þarf að sinna. Starfsfólki hefur því fjölgað og vinnudagur margra er langur sem síðan krefst aukinnar vinnu launadeildar.

Heilbrigðisstofnun er eins og maskína þar sem allir hlutar þurfa að vera í lagi til að starfsemin gangi upp. Með góðri skipulagningu stjórnenda og eljusemi allra starfsmanna hefur það tekist hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða síðustu vikur.

Starfsmenn hafa fundið hlýhug og þakklæti víða frá. Bæjarbúar sýna það með ýmsu móti. Kvenfélagið Hvöt, einstaklingar og ýmis fyrirtæki hafa sent gjafir sem sannarlega hafa komið sér vel þegar vinnudagur lengist og kaffi og matartímar eru teknir á hlaupum. 

Þökkum við kærlega fyrir okkur. 

Þau fyrirtæki sem stutt hafa starfið eru:

Hamraborg

Jakob Valgeir

Bónus Ísafirði

Góa

Kaffitár

Ölgerðin

Sóley Organics

Nói Siríus

Lava Cheese

Socks2Go

Bioeffect

Fitness Sport


Höf.:SLG