Magnús Baldursson sálfræðingur og Ragnheiður Eiríksdóttir hjúkrunarfræðingur hófu í dag störf á á HVEST. Þau munu, ásamt Hallgrími Kjartanssyni yfirlækni heilsugæslu, mynda nýtt geðheilsuteymi sem þjónar íbúum svæðisins.

Magnús mun koma tvisvar í mánuði tvo daga í senn og sinna ráðgjöf og meðferð skjólstæðinga ásamt frekari greiningu ef þörf er á. Hann hefur yfir 20 ára starfsreynslu sem sálfræðingur, bæði í og utan Reykjavíkur. Hann hefur m.a. unnið við stofurekstur, sem skólasálfræðingur og við greiningar og námskeiðahald á Þroska- og hegðunarmiðstöð heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Magnús er einnig starfandi sálfræðingur á heilsugæslu Garðabæjar. Eins og áður verða börn og ungmenni í forgangi hjá sálfræðingi, en hann kemur einnig að starfi mæðraverndar. Tilvísanir til sálfræðings fara í öllum tilfellum gegnum heimilislækna heilsugæslunnar.

Ragnheiður verður verkefnastjóri geðheilsuteymis og mun þar vinna að samhæfingu og eflingu geðheilbrigðisþjónustu á svæðinu sem HVEST þjónar. Að auki sinnir hún viðtölum og stuðningi við skjólstæðinga heilsugæslu. Ragnheiður hefur víða komið við í geðheilbrigðisþjónustu, m.a. á bráðadeild geðsviðs LSH, móttökudeildum og bráðaþjónustu. Hún hefur einnig unnið sem geðhjúkrunarfræðingur við Tækniskólann og um árabil sinnt ýmsum verkefnum er varða kynheilbrigði. Ragnheiður er einnig starfandi sem ráðgjafi á stofu í Reykjavík og við blaðaskrif um kynlíf og heilsu.

Magnús og Ragnheiður munu í vetur bjóða upp á HAM-námskeið á heilsugæslustöðinni fyrir fullorðna með áherslu á kvíða og depurð. Fleiri námskeið verða einnig í boði en dagsetningar og nánari upplýsingar verða auglýstar síðar.

Geðheilsuteymi HVEST er stofnað með það fyrir augum að efla þjónustu fyrir íbúa svæðisins. Teymið mun hafa yfirsýn yfir þjónustu sem er í boði og stuðla að því að hún nýtist sem best. Samskipti við aðrar stofnanir, fagaðila og meðferðarúrræði er varða geðheilbrigðismál verða í höndum verkefnisstjóra.


Magnús, Ragnheiður og Hallgrímur

Höf.:HH