Krabbameinsfélagið Sigurvon á norðanverðum Vestfjörðum hefur afhent Minningarsjóði Úlfs Gunnarssonar, fyrrum yfirlæknis, og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, hálfrar milljónar króna framlag sem ætlað er til stuðnings kaupa á nýju sneiðmyndatæki fyrir stofnunina.

 Árið 2005 fór af stað söfnun til kaupa á sneiðmyndatæki fyrir Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði. Keypt var notað tæki fyrir hluta söfnunarfjárins en því miður bilaði tækið á síðasta ári. Liðlega 1.300 manns höfðu verið rannsakaðir í tækinu á Ísafirði. ?Mikilvægi þess að hafa slíkt tæki til staðar á stofnuninni er því óumdeilanlegt með tilliti til styttri rannsóknartíma, markvissari árangurs í sjúkdómsgreiningum og minni kostnaðar þeirra sem notið geta slíkrar rannsóknar á heimaslóðum,? segir í fréttatilkynningu.

Söfnunin 2005 gekk svo vel að hún skilaði nálega tvöföldu kaupverði tækisins og hafa þeir fjármunir notið ágætrar ávöxtunar. Þegar lagt var mat á viðgerðarkostnað og rekstraröryggi hins gamla tækis var jafnframt leitað tilboða í nýtt tæki, enda hafa ný tæki lækkað verulega í verði þrátt fyrir veikingu krónunnar.

Meðal annars barst tilboð frá framleiðanda hins eldra fjögurra sneiða tækis um að skipta því út fyrir nýtt 16 sneiða tæki. Tilboðið hljóðaði upp á milligreiðslu að fjárhæð liðlega 40 milljónir króna. Stjórn Úlfssjóðs taldi þetta tilboð það hagstætt að ákveðið var að leggjast í framhaldssöfnun og hefur hún gengið með ágætum. Tækið er komið í hús og verið er að vinna að uppsetningu þess.

Enn vantar þó herslumun til að endar nái saman og því hefur verið ákveðið að leita til fyrirtækja og almennings um frjáls framlög til söfnunarinnar.

Úlfssjóður, sem stendur fyrir söfnuninni, hefur stofnað söfnunarreikning í Sparisjóðnum. Það væri sannarlega fengur í aðstoð þinni og viljum við í því sambandi benda á reikning nr. 1128-05-2051, kt. 430210-0170, segir í tilkynningunni.

Fréttin og myndin er fengin af bb.is


Höf.:ÞÓ