Árleg bólusetning gegn inflúensu hefst í dag þann 8. október. Bólusett er á milli kl. 14 og 15:30 virka daga.

Hér er um að ræða tvo A-stofna og einn B-stofn. Annað bóluefni verður svo í boði síðar vegna svokallaðrar svínainflúensu af stofni A(H1N1), væntanlega í nóvember.

 Hvað er inflúensa, hver eru einkennin og hvenær kemur hún?
Inflúensa er veirusýking sem einkennist af háum hita, þurrum hósta, höfuðverk, beinverkjum, oft með hálssærindum og nefrennsli. Einkennin koma snögglega. Árviss faraldur af völdum inflúensu A og oftast einnig af völdum inflúensu B hefst oft í desember eða janúar, en gera verður ráð fyrir að upphaf inflúensufaraldurs geti verið frá október til mars. Yfirleitt tekur 2?3 mánuði fyrir faraldur að ganga yfir.
Er inflúensan hættuleg?
Hætta á alvarlegum fylgikvillum inflúensu er mest meðal aldraðra og fólks með bælt ónæmiskerfi, en inflúensan leiðir á hverju ári til dauðsfalla meðal eldri borgara.
Hverjum er einkum ráðlagt að láta bólusetja sig?

  • Öllum sem orðnir eru 60 ára.
  • Öllum, bæði börnum og fullorðnum, sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum.
  • Starfsfólki heilbrigðisþjónustu og öðrum sem daglega annast fólk með aukna áhættu.
Þeir sem tilheyra ofangreindum hópum fá bóluefnið sér að kostnaðarlausu en greiða þó komugjald samkvæmt reglugerð nr. 1204 / 2008. Í síðasttalda hópnum eru það þó einungis heilbrigðisstarfsmenn sem ekki greiða fyrir bóluefnið.
Hversu mikil vörn er í bólusetningu?
Búast má við að bólusetning geti veitt a.m.k. 70% vörn gegn sjúkdómnum auk þess sem hann verður vægari hjá þeim í hópi bólusettra sem veikjast. Sóttvarnalæknir leggur áherslu á að sem flestir verði bólusettir, ekki síst þeir sem tilheyra forgangshópum.
Ef þú þarft að fá ráðleggingar, hafðu þá samband við heilsugæslustöðina þína.