A A A

Svćfing og deyfing

 

Aðdragandi aðgerðar

Í viðtali við heimilislækni þinn, eða skurðlækni, átt þú að hafa fengið upplýsingar um aðgerðina, mögulega fylgikvilla aðgerðar og svæfingar/deyfingar og farið í nauðsynlegar rannsóknir, ef þurfa þykir. Við komu á sjúkrahúsið, á aðgerðardeginum, færð þú einnig nánari upplýsingar um framkvæmd svæfingar/deyfingar og atriði varðandi uppvöknun og heimferð. Ef eitthvað er óljóst, skaltu óhikað fá samband við skurðlækninn, svæfingahjúkrunarfræðing, eða skurðhjúkrunarfræðinga og fá svör við því sem þér liggur á hjarta.

 

Mikilvæg atriði, sem þú verður að segja frá fyrir aðgerðina eru ofnæmi, eða óþol fyrir lyfjum, mat, eða efnum, sjúkdómar sem hrjá þig, eða hafa haft varanleg áhrif á þig, föst lyf og náttúrulyf sem þú tekur, og vandamál sem upp hafa komið við fyrri svæfingar og deyfingar.

 

Að morgni aðgerðardags er æskilegt að þú sápuþvoir þér í sturtu. Ekki nota húðkrem (body lotion), eða andlitsfarða, að sturtu lokinni.

 

Hvert mæti ég til aðgerðarinnar?

Skurðaðgerðir fara fram á Skurðdeild á 1. hæð. Þegar þú mætir til aðgerðar á aðgerðardegi beint að heiman, ferð þú í afgreiðslu sjúkrahússins og gefur þig þar fram. Þér er vísað á biðstofu Skurðdeildar, þar sem skurðhjúkrunarfræðingur tekur á móti þér.

 

Af hverju þarf ég að vera fastandi?

Fastandi þýðir að hafa ekkert drukkið og ekkert borðað. Í svæfingu lamast blaðkan sem lokar fyrir barkann, þegar við rennum niður mat og drykk. Alltaf er möguleiki í svæfingu á að magainnihald og magasýrur geti runnið upp úr maganum og farið óhindrað ofan í lungu, og valdið lífshættulegri lungnabólgu. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa magann tóman fyrir svæfingu. Í undantekningartilfellum getur deyfing ekki virkað sem skyldi. Þá gæti þurft að svæfa í staðinn og þá er fasta nauðsynleg. Annars þyrfti að fresta aðgerðinni.

 

- Matur:

Börn og fullorðnir mega ekkert borða af fastri fæðu í 6 klukkustundir (klst) fyrir aðgerð. Ef aðgerð er t.d. kl. 8 að morgni má ekkert borða eftir kl. 2 nóttina áður. Mjólk og safi með ögnum í teljast til fastrar fæðu.

Barn á brjósti eða á pela þarf að vera fastandi á brjóstamjólk eða tilbúna mjólk í 4 klst fyrir aðgerð.

 

- Vökvi:

Allir mega drekka tæran vökva í hófi, s.s. vatn, eða te (ekki mjólk, gosdrykki, kaffi, eða safa með ögnum í) allt að 2 klst fyrir aðgerð.

 

Fullorðnir mega drekka vatn, allt að 150 ml með föstum lyfjum sínum allt að 1 klst fyrir aðgerð.

Börn mega drekka vatn, allt að 75 ml í sama tilgangi 1 klst fyrir aðgerð.

 

Má ég taka föstu lyfin mín?

Allir sem eru á föstum lyfjum vegna hjarta- og æðasjúkdóma, öndunarfærasjúkdóma, geðsjúkdóma, magasjúkdóma, sýkinga og ofnæmis mega, og ættu, að taka þau með ¼ glasi af tæru vatni, a.m.k. 1 klst áður en komið er á sjúkrahúsið.

- Blóðþynningarlyf, s.s. Hjartamagnyl, Kóvar, Plavix, o.fl. þarf stundum að hætta að taka inn 2 vikum fyrir aðgerð, vegna blæðingarhættu. Mikilvægt er að ráðfæra sig við skurðlækninn, hvenær hætta skal töku þeirra fyrir aðgerðina.

- Insulín og töflur vegna sykursýki ekki nota að morgni aðgerðardags, vegna föstu og hættu á blóðsykurfalli. Nauðsynlegt er að tilkynna skurðlækni um slíkar lyfjatökur með góðum fyrirvara, svo hægt sé að hafa aðgerðina fyrsta að morgni og stytta þannig föstutímann eins og hægt er.

- Jurtalyf, fæðubótarefni, orkudrykki og önnur “náttúruefni” má alls ekki taka inn fyrir aðgerð. Dæmi: Hvítlaukslyf (garlic), Ginkgo biloba, Ginseng, Modigen (St. Johns Wort), Sólhattur (echinacea), Ephedra (ma huang, efedrínlyf), Kava rót, Garðabrúða (valerian) og drykkir með koffeini og guarana. Ekki ætti að taka þau í a.m.k. 1 viku fyrir aðgerð, vegna þess að mörg þeirra innihalda efni, sem geta valdið hættulegum milliverkunum við svæfinga- og deyfilyfin og haft óæskileg áhrif á hjarta og æðakerfi í svæfingu.

 

Andlitsfarði, skart og lausir munir

Fyrir aðgerðina þarftu að fjarlægja allan andlitsfarða og naglalakk svo hægt sé að fylgjast með raunverulegum húðlit í aðgerðinni.

Einnig þarftu að skilja gleraugu, linsur og skartgripi eftir heima, eða í læstri hirslu á sjúkrahúsinu. Gerfitennur þarf ekki að fjarlægja.

 

Lyfjaforgjöf

Venjulega eru kæruleysislyf ekki gefin fyrir aðgerðina, nema rík þörf sé á því. Ef þú þjáist af mikilli ógleði og uppköstum eftir svæfingu, þá er mikilvægt að geta þess fyrir aðgerðina, svo hægt sé að gefa þér sérstök lyf til að koma í veg fyrir það.

 

Svæfingin

Á skurðarborðinu er hjá fullorðnum lögð plastnál í æð á handarbaki, eða handlegg, og gefinn innrennslisvökvi. Þú ert svo tengd(ur) við vöktunartölvu og skjá, sem sýnir m.a. hjartalínurit, púls, blóðþrýsting, súrefnismettun blóðs og það magn sem fer inn og út úr þér af innöndunar-svæfingarlyfi, súrefni, ofl.

 

Áður en þú sofnar er þér gefið súrefni og þú færð þá gjarnan hjálparlyf við svæfinguna, eins og verkjalyf og lyf sem framkallar m.a. munnþurrk. Síðan er svæfingarlyfi sprautað í nálina og þú veist ekki af þér fyrr en aðgerð er lokið.

 

Þú ert vakin(n) á skurðstofunni og flutt(ur) tilbaka á Vöknun, þar sem þú nærð áttum og jafnar þig eftir aðgerðina. Eymsli í hálsi geta verið eftir kokmaska eða barkarennu í svæfingunni. Í aðgerðinni hefur þú fengið verkjalyf og þú færð þau einnig eftir þörfum á vöknuninni.

 

Börn eru yfirleitt svæfð með því að anda að sér svæfingarlyfinu. Það er gert á meðan þau sitja í fangi foreldris, en eru svo lögð á skurðarborðið. Þá eru þau tengd við vaktarann og sett upp æðanál og vökvi, ef þörf er á.

 

Deyfing

Við deyfingu hverfur allt sársaukaskyn, en snertiskyn er oftast til staðar. Deyfingaráhrifin og lengd deyfingar fara eftir tegund deyfingar og magni deyfingarlyfja.

Undirbúningur og vöktun eru svipuð og við svæfingu og oft eru gefin súrefni og róandi lyf í æð á meðan á aðgerð stendur.

Algengustu deyfingar eru:

· Slímhúðardeifing (t.d. í kok við magaspeglun og í þvagrás við blöðruspeglun)

· Staðdeyfing (t.d. við staðbundnar aðgerðir á, eða undir, húð)

· Holhandardeyfing (t.d. við aðgerðir í lófa)

· Mænudeyfing (spinal - t.d. við keisaraskurði)

 

Mikilvægt eftir svæfingu og deyfingu

Fyrst eftir að þú vaknar af svæfingu valda vímuáhrif því, að þú ert linari við öndun og hreyfingu en annars. Grunn öndun eykur líkur á ógleði og samfalli á lungnablöðrum með hættu á lungnabólgu. Hreyfingarleysi er líka algert neðan mittis eftir mænudeyfingu. Það eykur hættu á blóðtappa í fótleggjum. Þú þarft því, að gæta þess vel, á meðan þessi áhrif eru að hverfa, að:

  • Draga andann djúpt niður í lungun annars slagið og blása frá þér með stút á munni.
  • Einnig við og við að kreppa tær og hreyfa fætur í hringi um ökla, og spenna og slaka á kálfa- og lærvöðvum.

 

Þegar þú ferð framúr fyrst eftir svæfingu og aðgerð, er hætta á svima og ógleði. Þú skalt því fara varlega og setjast á rúmstokkinn til að byrja með og alltaf með aðstoð.

 

Þú mátt alls ekki aka sjálf(ur) heim að aðgerð lokinni. Slævandi áhrif svæfinga- og verkjalyfja gera þig óhæfa(n) til aksturs.

 

Verkir geta verið talsverðir eftir að heim er komið. Taktu verkjalyf reglulega yfir daginn 2-3 fyrstu dagana eftir aðgerð, frekar en að bíða eftir verkjakasti.

 

 

 Endurskoðað í janúar 2013 - Hörður Högnason

Vefumsjón