A A A

Skordýrabit

Fyrst og fremst ber að hafa í huga að oftast stingur flugan ekki nema henni sé ógnað til dæmis með því að fara of nálægt búinu eða slá til flugunnar. Ef flugan stingur er í flestum tilfellum ekkert að óttast, þar sem stungur eru ekki hættulegar. Þær valda hinsvegar staðbundnum óþægindum svo sem bólgu, kláða og sársauka. Ekki er þörf á að leita læknis í þessum tilfellum. Flestir geta meðhöndlað stunguna sjálfir með því að fjarlægja broddinn ef hann er sýnilegur, með flísatöng eða hníf. Þá er ágætt að þrífa sárið með volgu vatni og sápu og að síðustu að kæla stunguna til að minnka bólgu. Ef mikill kláði kemur fram í kjölfarið má kaupa ofnæmislyf í apóteki án lyfseðils. Þau geta slegið á kláða sem fylgir. Ef mikil bólga er í svæðinu getur hjálpað að bera á Mildison® krem sem fæst einnig í apóteki án lyfseðils.

Möguleiki er á að það komi sýking í skordýrastungu. Það gerist yfirleitt þegar meira en tveir dagar eru liðnir frá stungu. Merki um sýkingu er aukinn roði, bólga, rauðar rákir sem teygja sig út frá stungustað og graftarkennd útferð úr sári. Komi sýking í sárið skal leita ráða hjá lækni þar sem þá gæti þurft að meðhöndla sýkinguna með sýklalyfjum.

Ofnæmisviðbrögð við flugnastungum eru þekkt og geta þau verið lífshættuleg. Ofnæmið er hins vegar mjög sjaldgæft. Ef einkenni ofnæmis koma fram skal ráðfæra sig við lækni án tafar. Merki um ofnæmissvar við flugnastungu eru:

  1. Dreifð útbrot á húð
  2. Bjúgur á vörum
  3. Erfiðleikar við öndun
  4. Almenn vanlíðan og ógleði

 

Vefumsjón