A A A

Hálskirtlataka

 

HNE-þjónusta

Starfsfólk sjúkrahúss og heilsugæslu vonar að þjónusta háls-, nef- og eyrnalæknis á Ísafirði sé til bóta fyrir heilbrigðisþjónustuna í heimahéraði og verði til þess, að tíðum og tímafrekum læknisheimsóknum til Reykjavíkur fækki. Markmið okkar er að veita þér og þínum eins góða umönnun og meðferð og kostur er og við vonum að þjónustan á stofnuninni standist væntingar þínar.

 

Fyrir aðgerð

Hálskirtlatakan er framkvæmd á skurðdeild FSÍ á 1. hæð og verður hringt í þig til að ákveða mætingartíma.

           

Vegna svæfingarinnar fyrir aðgerðina verður sjúklingurinn að vera fastandi, þ.e. að hafa ekkert drukkið eða borðað frá miðnætti kvöldið áður. Leyfilegt er að drekka tæran vökva (vatn, te, kaffi) allt að 2 klst fyrir svæfingu.

Ung börn þurfa styttri föstu og er rétt að miða föstu þeirra við áætlaðan aðgerðartíma (þó ekki undir 4 klst).

           

Ef sjúklingurinn er með kvef er nauðsynlegt að geta þess þegar mætt er til aðgerðar.

           

Sjúklingurinn þarf að hafa fataskipti að hluta á skurðdeildinni og fær þar skurðstofuskyrtu. Barn þarf helst að vera í stutterma bol og að öðru leiti þannig klætt, að auðvelt sé að gefa því verkjastíl eftir að það er sofnað.

           

Eftir aðgerðina liggur sjúklingurinn á uppvöknunarherbergi deildarinnar þangað til hann er vel vaknaður, engin merki eru um blæðingu frá koki og hann hefur fengið frekari leiðbeiningar og útskýringar frá HNE-lækninum fyrir brottför.

 

Svæfingin

Börn eru svæfð í fangi foreldris, með því að anda að sér svæfingarlyfi og súrefnisblöndu. Eftir að þau eru sofnuð eru þau tengd við hjarta- og öndunarvaktara. Þá er einnig sett lítil plastnál í handleggsæð fyrir nauðsynleg lyf og næringarvökva. Vökvann fá þau fram að heimferð og er nálin ekki fjarlægð fyrr, af öryggisástæðum.

           

Fullorðnir og stálpaðir unglingar eru tengdir við sömu tæki og fá samskonar nál og vökva fyrir svæfinguna. Þeir eru svæfðir með lyfi í æð, en haldið sofandi með innöndunarlyfjum.

           

Sjúklingurinn vaknar á skurðstofunni strax eftir aðgerðina, en man lítið eftir sér fyrr en um 30-60 mínútum síðar.

           

Algengt er að ung börn vakni óróleg, ósátt og grátandi, á meðan þau eru að ná áttum eftir svæfinguna og af því að þeim stafar ógn af æðanálinni.

 

 

Verkir og óþægindi í hálsi

Hálskirtlatöku fylgja einhverjir verkir í allt að 7-10 daga. Þeir eru verstir fyrsta daginn og geta þá leitt upp í eyru, en minnka smám saman eftir það. Erfitt er að kyngja, sérstaklega aðgerðardaginn og blóðrestar og þykkt slím í hálsinum auka á óþægindin.

           

Við upphaf aðgerðarinnar er börnum gefinn verkjastíll sem byrjar að verka um það leiti sem henni lýkur. Fullorðnir og unglingar fá verkjatöflur um 1 klst fyrir aðgerðina í sama tilgangi. Meðal svæfingarlyfjanna er sterkt verkjalyf sem gefið er í æðanálina eftir þörfum og einnig á uppvöknunarstofunni, ef með þarf.

           

Við brottför af sjúkrahúsinu er mikilvægt að fá leiðbeiningar um verkjalyfjatöku heima. Fyrir flest börn eru verkjastílar auðveldari í notkun en töflur vegan kyngingarörðugleika. Hægt er að fá þá án lyfseðils í apoteki og er paracetamol heppilegast. Best er að taka verkjalyfin á föstum tímum yfir daginn fyrstu 2-3 dagana og halda sársaukanum þannig niðri, í stað þess að taka þau óreglulega, þegar sársaukinn er orðinn mikill.

 

Blæðing

Aðgerðinni fylgir yfirleitt einhver blóðugur uppgangur. Það eru restar af blóði sem farið hefur niður í vélinda og maga í aðgerðinni. Blóðið og seigt slím í kokinu auka á kyngingarörðugleika, en það má laga með því að skola munninn með köldu vatni.

           

Blæðing úr sárabeði er hugsanlegur fylgikvilli eftir aðgerðina. Best er að forðast að ræskja sig, eða hósta mjög kröftuglega, og varast grófan og heitan mat meðan sárabeðurinn er að gróa.

 

Hiti

Sjúklingurinn getur fengið hitahækkun í allt að 38°C í nokkra daga eftir aðgerðina. Fari hitinn yfir það skal hafa samband við lækni.

 

Munnhirða

Mikilvægt er að hirða munninn vel til að forðast sýkingu í skurðsárunum. Bursta skal tennur eftir máltíðir.

           

Vond lykt er oft úr vitum fyrstu 3-5 dagana, meðan sárin eru að gróa. Sykurlaust tyggjó, eða vægur munnskolvökvi heldur lyktinni í skefjum.

 

Mataræði

Til að byrja með er erfitt að kyngja. Þegar sjúklingurinn er vaknaður má hann dreipa á köldum vökva. Síðar um daginn má auka drykkjuna, en varast of heitan vökva vegna blæðingarhættu. Það er mikilvægt fyrstu dagana að drekka vel til að koma í veg fyrir hitahækkun og þurrk.

    

Rétt er að borða fljótandi fæði fyrstu 1-2 dagana, s.s. tæra vökva, ávaxtasafa, vatn, tærar súpur og frostpinna. Mjólk er óæskileg á meðan óþægindin eru mest í hálsinum, því hún eykur seiga slímmyndun.

    

Varast ber harðan og grófan mat, t.d. kornflögur, hrökkbrauð og kornótt brauð/skorpu. Mikilvægt er að tyggja matinn vel.

    

Hrúður sem myndast yfir aðgerðarsárunum dettur af á 5. -7. degi eftir aðgerð. Þá verður hálsinn mjög sár og aukin blæðingarhætta er þá til staðar, ef borðaður er grófur, eða heitur matur.

 

Ef blæðing verður eftir að heim er komið:

  • Skola hálsinn vel með klakavatni.
  • Leggjast fyrir og spýta blóðinu, en varast að kyngja því.

Hringja í 450-4500 ef vart er við blæðingu á dagvinnutíma annars skal hafa samband við 1700. 

 

Fylgdarmenn

Foreldrar, eða aðrir aðstandendur, sem fylgja og dvelja hjá börnum sínum eftir kirtlatökuna, geta fengið sér kaffisopa í matsal á 1. hæð, á meðan á aðgerð stendur, en mega ekki taka hann með sér inn á skurðdeildina, af tillitssemi við fastandi börn þar. Einnig geta þeir keypt hádegismat á vægu verði í matsal.

 

 

Vefumsjón