A A A

Endurhćfing: upplýsingar fyrir ţátttakendur

 

Upplýsingar fyrir þátttakendur

  

Markmið

Markmið þessa endurhæfingarkerfis er að hjálpa þér að viðhalda sjálfstæði þínu í daglegu lífi, efla þrótt og færni og bæta þannig möguleika þína til að sjá um þig sjálf(ur) sem allra lengst.

 

Hvernig er fólk valið?

 Sérstakt endurhæfingarteymi, sem í er lyflæknir, hjúkrunar-fræðingar, sjúkraþjálfari og iðjuþjálfi, metur hvern og einn einstakling með tilliti til andlegrar og líkamlegrar heilsu,  færni í að takast á við athafnir daglegs lífs, félagslegra aðstæðna og möguleika á að bæta allt þetta með sérsniðnu endurhæfingar-prógrami.

           

Þeir einstaklingar sem teknir eru inn til endurhæfingar eru alla jafna frá Ísafirði og nærliggjandi sveitarfélögum. Einnig er einstak-lingum eftir sjúkrahúsvist á FSÍ eða öðrum stofnunum, oft boðið að taka þátt, ef það er metið svo, að sérhæfð endurhæfing geti bætt langtíma horfur þeirra til persónulegs sjálfstæðis.

 

Hvað tekur prógramið langan tíma?

 Gert er ráð fyrir að endurhæfingin taki um 4 vikur. Ekki er gert ráð fyrir að þeir sem koma í endurhæfingarprógram vistist til langframa á FSÍ að því loknu.

           

Ætlast er til, að þú farir heim um helgar og sofir heima um nætur, nema í undantekningartilfellum, en stundir endurhæfinguna á sjúkrahúsinu daglangt og hafir þar hvíldaraðstöðu.

 

 Til hvers er ætlast af þér?

  Vegna þess að dvölin á sjúkrahúsinu er löng  og af því að fáir komast að í einu, er mælst til þess að þú nýtir tíma þinn vel og takir af heilhug og dugnaði þátt í öllum þeim verkefnum, sem fyrir þig eru lögð.

           

Þú átt undantekningalaust að mæta á tilsettum tímum í iðjuþjálfun og endurhæfingu alla virka daga.

           

Þú átt ekki að liggja fyrir á daginn, nema til eðlilegrar hvíldar eftir erfiðar æfingar, enda er alls ekki litið á þig sem rúmliggjandi sjúkling. Ætlast er til, að þú klæðist venjulegum fatnaði yfir daginn, ekki náttfatnaði.

           

Til að auðvelda þér æfingar og áreynslu á endurhæfingar-deildinni, er best að klæðast þar þægilegum trimmgalla og æfingaskóm.

 

Hvað þarf að taka með sér á sjúkrahúsið?

 Ef þú ert næturgestur á sjúkrahúsinu er rétt að hafa með sér náttslopp, náttföt, inniskó og venjuleg snyrtiáhöld.

           

Lyfin sem þú tekur daglega og lyfjakort yfir þau hefur þú með þér á sjúkrahúsið og tekur lyfin eins og venjulega.

           

Þú færð handklæði og þvottapoka eins og þú þarft, auk annars eftir þörfum.

           

Þú getur farið eins oft í bað, eða sturtu, og þú vilt, í samráði við starfsfólk deildarinnar. Einnig máttu nota sturtur, sundlaug og heitan nuddpott á endurhæfingardeildinni milli kl. 8 og 16 virka daga. Mundu þá eftir að hafa með þér sundföt.

           

Umgengisreglur á sjúkrahúsinu

 Þú borðar morgunmat heima hjá þér áður en þú mætir á sjúkrahúsið. Næturgestir á sjúkrahúsinu fá morgunmat þar.

           

Hádegis- og kvöldmatur er undantekningalaust snæddur í dagstofu. Síðdegiskaffi er drukkið í vinnustofunni og kvöldkaffi (ef um það er að ræða) er drukkið í setaðstöðu á gangi bráðadeildar.

 

Ætlast er til, að þú búir sjálf(ur) um rúm þitt og notir salerni, ekki þvagflösku, eða bekju.

 

 Hvernig er árangur minn metinn?

Endurhæfingarteymið heldur fundi um það, hvernig þér gengur og hvort þú sért að ná tilætluðum árangri. Teymið ákveður framhaldið með það í huga.

           

Þú getur komið skilaboðum og athugasemdum inn á fundi endurhæfingarteymisins í gegnum viðkomandi hjúkrunarfræðing á bráðadeild, sjúkraþjálfarann eða iðjuþjálfann.

 

Meðferðaráætlun

            Við upphaf endurhæfingar fer fram líkamlegt og andlegt hæfnismat, læknisskoðun, mat á lyfjaþörf og endurhæfingarmat sjúkraþjálfara.

 

Dagskráin alla virka daga er svo eftirfarandi:

08:00-09:00:   Fótaferð og morgunmatur hjá næturgestum.

10:00-11:00:   Sjúkraþjálfun, gönguæfingar og þrekæfingar.

11:30-13:00:   Hádegisverður, hvíld.

13:00-14:00:   Sjúkraþjálfun, með áherslu á styrkjandi æfingar og jafnvægisæfingar.

14:00-16:00:  Iðjuþjálfun/vinnustofa. Kaffi.

 

Endurskoðað í september 2012 - Hörður Högnason

 

Vefumsjón