A A A

Bráđadeild, upplýsingar um deildina

 

 

Við komu á bráðadeild

Hjúkrunarfræðingur, eða sjúkraliði fyrir hans hönd, tekur á móti þér við komu á deildina, fylgir þér á sjúkrastofu og innritar þig á spítalann.

           

Læknar deildarinnar annast læknisþjónustu og framkvæmir einn þeirra læknisskoðun og skráir sjúkrasögu þína fljótlega eftir innlögn.

           

Hjúkrunarmeðferð er í höndum hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða undir stjórn hjúkrunardeildarstjóra. Einnig fer fram kennsla hjúkrunar– og sjúkraliðanema á deildinni. Ræstitæknar sjá um þrif á deildinni og störf í býtibúri (eldhúsi deildarinnar) við framreiðslu matar.

           

Gera má ráð fyrir að tekin verði blóð– og þvagsýni hjá þér við innlögn, eða strax morguninn eftir, auk annnarra rannsókna.

 

Klæðnaður

Æskilegt er að þú hafir meðferðis náttslopp, inniskó og öll almenn snyrtiáhöld. Spítalinn leggur til nærföt og náttjakka. Einnig handklæði og þvottapoka. Sjúklingar á fullri fótaferð eiga að klæðast eigin fatnaði á daginn.

 

Lyf

Á meðan þú ert á deildinni tekur þú aðeins þau lyf sem læknar deildarinnar ákveða og hjúkrunarfræðingar færa þér. Þú mátt ekki hafa lyf hjá þér á stofunni, sem þú skammtar sjálf(-ur). Þau lyf geyma hjúkrunarfræðingar og gefa þér samkvæmt fyrirmælum.

           

Takir þú lyf að staðaldri heima, er mikilvægt að þú hafir þau meðferðis á spítalann til að fyrirbyggja misskilning. Fólk í hvíldarinnlögn kemur með lyf sín og lyfjarúllur með sér og afhendir hjúkrunarfræðingi við komu á deildina. Lyfjakort á alltaf að hafa meðferðis, ef það er fyrir hendi.

 

Geymsla á verðmætum

Sjúkrahúsið ber ekki ábyrgð á peningum og öðrum verðmætum sem þú geymir í náttborðinu, eða fataskáp. Þér er ráðlagt að biðja hjúkrunarfræðinga deildarinnar um að geyma verðmæti þín í læstri hirslu á vaktherbergi.

           

Reykingar bannaðar

Reykingar eru alfarið bannaðar innanhúss og á lóð sjúkrahússins. Þetta gildir um alla, einnig inniliggjandi sjúklinga. Hægt er að fá ýmis nikotínlyf hjá hjúkrunarfræðingi, eftir innlögn, þangað til sjúklingur hefur útvegað sér þau lyf sjálfur. Einnig er boðið upp á ráðgjöf til að hætta reykingum.

 

Heimsóknartímar

Heimsóknartímar eru daglega kl. 15-15:45 og kl. 19-19:30. Heimsóknir utan þess tíma eru heimilar í samráði við vakthafandi hjúkrunarfræðing. Mjög veikir sjúklingar þola ekki langar heimsóknir og marga gesti í einu. Getur þurft að takmarka heimsóknir til þeirra. Sérstakt aðstandendaherbergi er á deildinni sem aðstanendur geta notað til að fá næði, eða nota þegar margir heimsóknargestir eru á sama tíma.

 

Sjúkrastofan og deildin

Við rúmið þitt er náttborð með hirslum og matborði. Við rúmið er einnig stjórntæki fyrir bjöllu, útvarp og lesljós. Þú hefur aðgang að sjónvarpi, annað hvort í dagstofu eða á sjúkrastofunni.

           

Á stofunni hefur þú þinn eigin fataskáp. Í kringum rúmið er hægt að draga hengi til að veita þér lágmarks friðhelgi. Við stofuna er salerni með sturtu.

           

Hinum megin á gangi deildarinnar eru þjónustuherbergi, s.s. hjúkrunarvakt, skol, geymslur, línherbergi, býtibúr og baðherbergi. Umgangur um býtibúrið er aðeins heimill starfsfólki, ekki sjúklingum, eða aðstandendum.

           

Máltíðir

Hádegis- og kvöldverður eru bornir fram í matsal (dagstofu) sjúklinga. Tímasetning máltíða:

  • Morgunverður kl. 8:30
  • Hádegisverður kl. 11:30
  • Síðdegiskaffi kl. 14
  • Kvöldverður kl. 17:30
  • Kvöldkaffi kl. 20

 

Ætlast er til að þú borðir í matsalnum að öllu jöfnu, nema þú sért rúmliggjandi, eða komist ekki í matsalinn af öðrum orsökum.

 

Sími, tölva og upplýsingar um líðan þína

Símanúmer spítalans er 450 4500. Beinn sími á deildinni er 450 4565. Ef einhver vill ná símasambandi við þig, þá er númer sjúklingasímans 450 4599. Það er þráðlaus sími, sem auðvelt er að færa milli stofa. Láttu vita um leið og þú hefur notað símann, því aðrir gætu þurft að nota hann. Heimilt er að nota GSM-síma á deildinni.

           

Þráðlaust netsamband er á deildinni og því er hægt að nota fartölvu til netsamskipta. Þú ert beðinn um að stilla netnotkun í hóf, því lækningatæki á deildinni nota tölvusambandið líka. Einnig er tölva á aðstandendaherbergi, til afnota fyrir sjúklinga og gesti þeirra.

           

Upplýsingar í síma um líðan þína eru helst ekki veittar nema milli kl. 13-16 og 19-20 og þá aðeins til nánustu fjölskyldumeðlima (foreldra, barna, tengdabarna), eða þeirra sem þú tiltekur sérstaklega. Ekki til annarra.

           

Þagnarskylda

Allt starfsfólk spítalans er bundið þagnareiði um tilvist þína á deildinni og um allt sem er þér, sjúkleika þínum, meðferð og líðan viðkomandi.

           

Þú og gestir þínir eru beðnir að virða persónulegt einkalíf og viðkvæm málefni annarra sjúklinga og aðstandenda þeirra á sama hátt.            

 

 

Blöð og bækur

Dagblöð, héraðsblöð og ýmis tímarit berast deildinni. Þú ert vinsamlegast beðin(n) að skila þeim í blaðahirslu að lestri loknum.

 

Hárgreiðsla og snyrting

Sjúklingar geta fengið til sín hárgreiðslu– eða hárskerameistara, fótsnyrti og snyrtifræðing með einhverjum fyrirvara. Fyrir þá þjónustu greiða sjúklingar úr eigin vasa.

 

Prestþjónusta

Prestur vitjar inniliggjandi sjúklinga á þriðjudögum. Þeir eru að sjálfsögðu tilbúnir til vitjana og viðtals við sjúklinga og aðstandendur á öðrum tímum, sé þess óskað.

           

Á þriðjudögum kl. 16 er einnig helgistund í kapellu spítalans. Kapellan er að öðru leiti opin allan sólarhringinn fyrir þá sem þangað vilja leita.

 

Útskrift af spítalanum - Eftirmeðferð

Við útskrift af spítalanum færð þú nauðsynlegar upplýsingar um lyfjatökur og eftirmeðferð, ef einhver er, hjá lækni eða hjúkrunarfræðingi. Eftirlit og eftirmeðferð fer oftast fram hjá heimilislækni á heilsugæslustöð, eða hjá sérfræðingi á göngudeild spítalans, en einnig á endurhæfingardeild. Einnig er haft samráð um eftirmeðferð og lyfjatökur við Heimahjúkrunardeild HV, ef þú nýtur aðstoðar hennar heima.

           

Á meðan þú ert á deildinni, skaltu spyrja um það sem þér liggur á hjarta varðandi sjúkdóm þinn, meðferð, rannsóknir, lyfjatökur og eftirmeðferð, svo ekkert fari á milli mála.

 

Lokaorð

Starfsfólk spítalans vonar að þú fáir á deildinni og öðrum stoðdeildum þá meðferð og umönnun sem þú þarfnast. Hafir þú einhverjar athugasemdir eða kvartanir fram að færa um dvöl þína hér, biðjum við þig að óska eftir sambandi við hjúkrunardeildarstjóra, framkvæmdastjóra hjúkrunar eða framkvæmdastjóra lækninga.

 

Endurskoðað í apríl 2012

Vefumsjón