A A A

Andlát og undirbúningur útfarar

Endursk./HH/júlí 2017

 

Kæru aðstandendur

     Ástvinamissir er alltaf erfið reynsla  og enginn er fyllilega búinn undir slíkt áfall, hversu langur sem aðdragandinn kann að hafa verið.  Spurningar leita á hugann um hvað gera þurfi fram að útför. Að mörgu er að hyggja og erfitt að henda reiður á öllu sem gera þarf á stuttum tíma.

            Starfsfólk Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða á Ísafirði annast hinn látna í líkhúsi og gengur frá í  kistu. Ættingjarnir þurfa sjálfir, í samráði við prestinn sinn, að annast öll samskipti við kirkju, sjúkrahús, kistusmið, blómabúð, prentsmiðju og fjölmiðla, o.fl.

     Með bæklingi þessum vill starfsfólk stofnunarinnar leiðbeina ykkur um það helsta, er huga þarf að fyrir útförina, um leið og það vottar ykkur dýpstu samúð.

 

Tilkynning um andlát

     Þegar búið er að láta alla nánustu aðstandendur og vini vita, er tilkynning um andlátið vanalegast birt bæði í dagblaði og útvarpi. Ef útfarardagur er ekki nefndur þar, er nauðsynlegt að tilkynna hann á sama hátt síðar. Venja er að hafa mynd af hinum látna með tilkynningunni. Upplýsingar um andláts- og útfarartilkynningar eru á vefmiðlum útvarps og dagblaða.

 

Presturinn

     Við ráðleggjum ykkur að tilkynna prestinum ykkar um andlátið sem allra fyrst, til að

þiggja aðstoð hans, stuðning  og umhyggju í sorginni, jafnvel strax við dánarbeðið.

     Í samráði við kirkjuvörð, eða prestinn, er fengið legstæði í kirkjugarði og gröf tekin.

Einnig þarf að tímasetja og ákveða fyrirkomulag kistulagningarathafnar og útfarar, hvaða sálma á að syngja við útförina og hvort um sérstakan kór, hljóðfæraleik, eða einsöng  verður að ræða. Þá þarf presturinn upplýsingar um hinn látna vegna minningarræðu við útförina. Í því sambandi er komið á framfæri boði til erfidrykkju og e.t.v. kveðjum frá fjarstöddum ættingjum og vinum.

 

Dánarvottorð

     Dánarvottorð er gefið út af lækni þeim, er stundaði hinn látna og staðfesti andlátið. Hafi andlátið borið að með sviplegum hætti (t.d. slys, eða andlát í heimahúsi) og framkvæmd hafi verið réttarkrufning, gefur Rannsóknarstofa Háskóla Íslands út vottorðið.

     Aðstandendur sækja vottorðið á sjúkrahúsið og koma því til skiptaráðanda (skrifstofu sýslumanns), en hann afhendir í staðinn viðurkenningu um að honum hafi verið tilkynnt um andlátið. Hún er síðan afhent prestinum sem jarðsyngur. Óheimilt er að jarðsyngja, ef viðurkenning sýslumanns er ekki til staðar.

 

Sálmaskrá

     Allar prentsmiðjur (á Ísafirði: JHprent, Urðarvegi 24, s: 695 4174, netf: jhprent@gmail.com) taka að sér prentun sálmaskrár (grafljóða) og er hægt að velja um ýmsar útfærslur. Fyrir prentun þurfa að liggja fyrir upplýsingar um eintakafjölda, nafn, fæðingardag og dánardag hins látna, nákvæma      dagskrá útfarar, þ.m.t. sálma, hvaða prestur jarðsyngur, hverjir annast söng og hljóðfæraslátt og boð til erfidrykkju.  Vanalega er a.m.k. höfð mynd af hinum látna á forsíðunni. Aðstandendum er bent á að prófarkalesa sálmaskrána vandlega fyrir prentun.

 

Kista

     Panta þarf líkkistu með góðum fyrirvara. Kistusmiður á Ísafirði er Arnór Magnússon,  gsm: 861 4624, hs: 456 4143. Hann er einnig með krossa og skilti fyrir leiði. Útfararþjónustur á Reykjavíkursvæðinu aðstoða við útvegun á kistum þar, sem og aðra útfararþjónustu fyrir sunnan.

     Öllum kistum fylgja koddi, sæng, hvítur kirtill eða klæði, sokkar og andlitshjúpur. Ef kista er pöntuð að sunnan þarf að taka mál af hinum látna og annast ráðsmaður sjúkrahússins það, ef óskað er.

            Ef óskað er eftir bálför, þarf að hafa samband við Kirkjugarða Reykjavíkurprófasts-dæma, sem reka bálstofuna, í síma 585 2700. Ef hinn látni er í Reykjavík, annast viðkom-andi útfararstofa þar alla fyrirgreiðslu, frágang í kistu og annað, ef óskað er.

 

Kistulagningarathöfn

     er stutt kveðjuathöfn fyrir nánustu fjölskyldumeðlimi og mjög nána vini, oftast daginn fyrir útför. Á Ísafirði fer hún oftast fram í kapellu sjúkrahússins seinni part dags, um kl. 17 eða 18. Kapellan tekur um 30-35 manns í sæti. Fari fjöldi við athöfnina mikið yfir það er þægilegra að hafa kistulagningarathöfnina í viðkomandi útfararkirkju sama dag og útförin. Kistan er þá opin og hinn látni er með andlitshjúp, sem má fjarlægja á meðan á athöfninni stendur, eða í lok hennar, þegar hinn látni er kvaddur hinstu kveðju. Yfirleitt er hinn látni klæddur hvítum kirtli og sokkum sem fylgja kistunni. Sjálfsagt er þó, að hann sé klæddur í eigin föt, ef þess er óskað.

     Heimilt er að setja sálmabók, eða biblíu og/eða blóm í kistuna og er tilvalið að leyfa börnum að gera það, ef þau eru viðstödd. Einnig þykir börnum vænt um að fá að setja teikningu eða bréf frá sér í kistuna. Ef ung börn eru viðstödd kistulagningu, er rétt að þau komi snemma og fái stuðning og leiðsögn hjá prestinum við kistuna, áður en sjálf athöfnin hefst. Rétt er að ráðfæra sig áður við prestinn um mögulega útlitsbreytingu á andliti hins látna, þ.e. hvort nokkuð sé því til fyrirstöðu, að fjarlægja andlitshjúpinn í athöfninni.

     Kistulagningarathöfn er oft heppilegri vettvangur en útför fyrir ung börn til að kveðja ástvin. Hún er styttri, hún er börnunum raunverulegri, þau fá betra tækifæri til að kveðja hinn látna á sinn hátt og taka þátt í sorginni með sínum nánustu við athöfn, þar sem auðvelt er að hreyfa sig, útskýra, svara spurningum og hugga.

    Ekkert er því til fyrirstöðu, að aðstandendur setji lokið á kistuna í lok athafnarinnar og festi það. Er það sumum táknræn kveðjustund og til þægðar að vita, að ekki verður hróflað við hinum látna meir.

 

Blóm og kransar

     Blómaverslun á Ísafirði tekur að sér gerð og útvegun kransa og blómaskreytingar á kistu. Nokkuð hefðbundið er að hafa blómaskreytingu á kistu og krans frá nánustu fjölskyldu hins látna. Um útlit og uppstillingu blómaskreytinga í kirkjunni sér kirkjuþjónninn, í samráði við aðstandendur. Blómaval, Ísafirði, s: 525 3310.

 

Annað fyrir útför

     Önnur atriði varðandi útförina sem huga þarf að, eru hverjir bera eigi kistuna úr kirkju í líkbíl og úr líkbíl að gröf og hverjir bera eigi kransa og blóm úr kirkjunni.

     Kistu er komið til kirkju á Ísafirði að morgni útfarardags í samráði við kirkjuþjón, en jafnvel daginn áður í kirkjur nágrannasókna, allt eftir venjum og aðstæðum á hverjum stað. Þá er gengið frá uppstillingu kransa og sálmaskráa.

     Hver sem er getur flutt kistu til kirkju, en  hægt er að snúa sér til kirkjuþjóns á Ísafirði um flutning í líkbíl.

 

Kostnaður við umönnun hins látna

Engin útfararþjónusta er á norðanverðum Vestfjörðum. Heilbrigðisstofnun Vestfjarða tekur því að sér að annast umönnun og umbúnað látinna á svæðinu, kæligeymslu, frágang í kistu og samskipti þar að lútandi við aðstandendur. Gjald fyrir þessa þjónustu er kr. 23.000.-

 

Helstu minnispunktar:

 • Tilkynning andláts (aðstandendur, vinir, prestur, fjölmiðlar).
 • Legstæði og gröf.
 • Dánarvottorð.
 • Kista.
 • Kistulagningarathöfn.
 • Tilkynning um útför (fjölmiðlar).
 •  Kransar og blóm á kistu.
 • Sálmaskrá.
 • Útför.
 • Erfidrykkja.
 • Þakkartilkynning í dagblöðum.
 • Einfaldur viðarkross og nafnplata til bráðabirgða, eða legsteinn.

 

Helstu samskiptaaðilar:

 · Heilbrigðisstofnun Vestfjarða - Ísafirði:  s: 450 4500: Samband við Hörð Högnason, gsm: 894 0927, netfang: hordur@hvest.is, staðgengil hans, eða viðkomandi legudeild (vakthafandi hjúkrunarfræðing).  

 

· Ísafjörður:

 • · sr. Magnús Erlingsson, gsm: 844 7153, vs: 456 3171 og 456 3560,                       hs: 456 3017, netfang: isafjardarkirkja@simnet.is
 • · Kirkjuþjónn: Elvar Ingason, gsm: 783 2623, vs: 456 3560,                             netfang: kirkjuthjonn@simnet.is

 

· Bolungarvík/Súðavík/Djúp:                                          

    sr. Ásta Ingibjörg Pétursdóttir, gsm: 861 3604, hs: 456 7135,                                         

    netfang: astapeturs@gmail.com

 

· Flateyri/Önundarfjörður  -  Suðureyri/Súgandafjörður:                                   

    sr. Fjölnir Ásbjörnsson, gsm: 866 2581, hs: 456 7672,  

    netfang: srfjolnir@simnet.is

 

· Þingeyri/Dýrafjörður:                                                 

   sr. Hildur Inga Rúnarsdóttir, gsm: 869 4993, hs: 456 8211,   

    netfang: hildurir@simnet.is

 

Til þín sem syrgir

      Sorgin er langt ferli sem missirinn leggur þér á herðar. Hún birtist í mismunandi myndum og á misjafnan hátt hjá hverjum og einum. En umfram allt eru tilfinningar og líkamleg einkenni henni fylgjandi eðlileg viðbrögð sem þú verður að takast á við. Við hvetjum þig til að leita huggunar og umhyggju hjá ástvinum þínum og presti. Við hvetjum þig til að spyrja þá, eða okkur, ósvaraðra spurninga, sem leita á hugann. Við bendum þér á góðar bækur um sorg og viðbrögð við missi. Og við bendum þér á gagnasafn um missi og sorg (www.missir.is) og samtök um sorg og sorgarviðbrögð (www.sorg.is).

 

 

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða

Endurskoðað í júlí 2017 – Hörður Högnason

 

 

 

 

 

 

Vefumsjón